Ég heiti Ingibjörg, kölluð Baddý og er hjúkrunarfræðingur að mennt og tveggja barna móðir. Þegar ég eignaðist fyrra barnið mitt velti ég því fyrir mér að nota taubleiur en fannst þetta eitthvað svo flókið og lagði ekki í það. Þegar ég eignaðist seinna barnið mitt tæpum tveimur árum síðar blöskraði mér allt bleiuruslið og hafði ekki samvisku í að henda svona miklu rusli þannig að ég kynnti mér taubleiur, og kolféll fyrir þeim í þetta skiptið.

Ég ásamt nokkrum öðrum mömmum í mömmuhóp stofnuðum grúppuna ‘Taubleiutjatt’ á facebook þar sem við gátum skipst á ráðum og fróðleik og ýmsu öðru tengdu taubleium. Við stofnuðum líka grúppuna ‘Taubleiutorg’ þar sem við gátum skipst á eða selt notaðar taubleiur sem voru ekki að hentar okkar krílum. Þarna skapaðist góður vettvangur fyrir ýmsar vangaveltur og fróðleik. Hópurinn stækkaði hraðar en við áttum von á. Markmið okkar með hópnum var að skapa jákvæðan vettvang fyrir upplýsingar og fróðleik um taubleiur og leggjum við mikið upp úr jákvæðum samskiptum í þessum grúbbum. Allir sem höfðu áhuga á taubleium voru velkomnir í hópinn og ári seinna vorum við orðnar yfir 1000! Greinilegt að áhuginn fyrir taubleium fór stækkandi.

Þegar seinna barnið mitt var nánast að hætta á bleiu fór ég að prófa mig áfram í að sauma, ég náði að hanna snið sem mér fannst passa vel á mína dömu sem er frekar nett. Þegar hún var hætt að nota bleiur fór ég að sauma á systurdóttur mína og pössuðu þær líka svona fínt á hana þrátt fyrir að hún væri búttaðri og stærri í vextinum en mín dama. Svo var það eiginlega Hanna systir sem hvatti mig í að sauma fyrir aðra og Dagný systir sem hannaði þetta flotta lógó og svo þessa síðu þannig að ég lét slag standa og byrjaði að sauma fyrir alvöru en facebooksíðan varð til 14. apríl 2014. Það má segja að það sé formlegur upphafsdagur Obbossí bleianna.

Endilega deildu: