Tilkynningar

Nokkrar staðreyndir og mýtur um margnota taubleyjur

Umhverfismál eru mál málanna í dag.  Eitt af því sem þarf að huga að þegar von er á barni eru bleyjur, og þar sem við erum sífellt farin að flokka rusl og endurvinna meira, þá skýtur það svolítið skökku við að búa til heilmikið óflokkanlegt plast- og pappírsrusl þegar nýja barnið kemur í heiminn. Taubleyjur eru umhverfisvænni og heilsusamlegri kostur fyrir barnið sem allir foreldar ættu að skoða mjög vel. Fyrir utan hvað þær eru skemmtilega litríkar og fallegar. Okkar reynsla er líka sú að þeir foreldrar sem nýta sér taubleyjur fara oft ósjálfrátt að leita eftir fleiri margnota hlutum, eins og bossaklútum og taubindum.

Hérna koma helstu punktar sem stoppa fólk oft í að kynna sér taubleyjur, og svör okkar við þeim.

Kostnaður – “þær eru of dýrar”

Áætlað er að hvert barn noti um 5000 bleyjur yfir bleyjutímabilið. Almennt verð á einnota bleyju í meðalstórum pakka er um 30 kr. Heildarkostnaður er þannig um 150.000 kr.
Vönduð taubleyja kostar um 4.500 kr. Þegar barnið er komið í góðan takt með að sofa og drekka og regla komin á er gott að eiga 12-15 stk til skiptana, miðað við að það sé þvegið annan hvern dag. Heildarkostnaður er þannig um 67.500 kr. Svo er hægt að selja notaðar bleyjur og fá kostnaðinn að einhverju leyti til baka. Einnig er hægt að geyma bleyjurnar og nota fyrir næstu börn.

Fyrir utan umhverfiskostnaðinn en talið er að bréfbleyja sé um 500 ár að eyðast í náttúrunni, ef hún gerir það nokkurn tíman. Niðurgrafin í öskuhaug brotnar hún ekki niður heldur myndar metangas sem er margfalt verri gróðurhúsalofttegund en koldíoxíð. Fyrir utan olíuna og eiturefnin sem eru í sjálfri bleyjunni og hefur áhrif á húð barnsins. Mikil mengun fylgir einnota plastbleyjunum og hafa sum lönd íhugað að banna einnota bleyjur.

Óhreinindi – “þetta er of ógeðslegt”

Lyktin, sem kemur af óhreinum bréfbleyjum, er aðallega af efnum í bleyjunum sjálfum sem gefa frá sér lykt þegar það kemst í snertingu við þvag/úrgang. Enda hafa rannsóknir sýnt að það eru hreinlega eiturefni í einnota bréfbleyjum! Óhreinar taubleyjur eru settar í opna fötu/dall og þvegið ca annan hvern dag.

Lyktin sem kemur á öðrum eða þriðja degi er aðallega ammoníaklykt, svipuð lykt og er af hjartarsalti. Lyktin getur aukist ef bleiurnar eru geymdar óhreinar í lokuðu íláti. Margir nota hríspappír í bleyjurnar, sem grípur kúkinn þannig að hægt er að setja kúkinn beint í klósettið, þá eru ekki mikil óhreinindi í bleyjunni sjálfri.  Hríspappír er ekki úr sama efni og blautþurrkur (þær mega alls ekki fara í WC) og þú skalt athuga sérstaklega hvort hríspappírinn sé sannarlega niðursturtanlegur. Ef hann er einungis blautur þá má hann fara með í þvottavélina, hann brotnar ekki niður á þeim 2 tímum sem vélin er að þvo en þolir ekki marga þvotta, eðlilega. Þessir allra hörðustu og hugrökkustu skafa hreinlega kúkinn úr bleyjunni t.d. með wc pappír, yfir klósettinu og sturta honum niður um leið.

Bleyjurnar eru svo þvegnar á 60°c (við mælum reyndar með 40°c en það er yfirleitt óhætt að þvo við 60°c). Svo er gott að setja þvottavélina á suðuþvott ca. 2x í mánuði (tóma eða með tuskum sem þola 90°c) og leyfa henni að vera opin þegar hún er ekki í notkun.

Of erfitt – “þetta er allt of mikil vinna”

Það er mikil vinna að vera með lítið barn og því fylgir vissulega mikill þvottur. Það er merkilegt að af því maður er hvort sem er alltaf að þvo þá eru taubleyjurnar ekki mikil viðbót. Með taubleyjunum fer maður oft að nota fjölnota bossaklúta og setur þá með í vélina, auk samanbrjótanlegu taubleyjanna sem margir nota sem gubbuklúta eða smekkina þegar börnin fara að borða. Þetta getur allt farið með í vélina og minnkar ruslið frá heimilinu svo margfalt!

Margar taubleyjumömmur segja að litríku taubleyjurnar búi til áhugamál sem hægt er að “deila” með litla barninu. Vinnan við taubleyjurnar verður ánægjulegri þegar maður hugsar um allar einnota bréfbleyjurnar sem maður hefði annars verið að senda í urðun á ruslahaugana.

Of flókið – “það er engin leið að læra inn á þetta”

Taubleyjur eru orðnar mjög einfaldar og auðveldar, sérstaklega vasableyjurnar okkar með ísmelltu innleggi. Þumalputtareglan til að halda þeim góðum er að þvo þær án mýkingarefnis (það fer illa með ysta vatnshelda lagið) og nota ekki bossakrem með fitu (það gerir innra lagið vatnshelt og eykur hættu á leka). Það er auðvelt að umgangast þær, smellukerfið að framan gerir það að verkum að bleyjan stækkar með barninu.

Óþægindi – “er maður ekki bara fastur heima?”

Það er ekkert mál að taka taubleyjur með í styttri ferðir. Við mælum með að hafa fjölnota PUL poka meðferðis fyrir óhreinan þvott. Ef þú hefur aðgang að þvottavél á ferðalögunum þá eru þær jafnvel ennþá hentugri, þá áttu alltaf bleyjur og minnkar ruslið frá ykkur! Fjölmargar dagmæður eru jákvæðar gagnvart taubleyju notkun, en best er að hafa þær eins tilbúnar og hægt er, þ.e. smelltar í rétta stærð og með hríspappír innan í ef það er notað. Einnig er gott að hafa sér fjölnota PUL poka fyrir óhreinar bleyjur og taka þær með heim.

Að auki fara taubleyjurnar betur með húð barnsins og minni hætta er á bleyjuútbrotum. Þegar barnið eldist þá finnur það vissulega fyrir meiri óþægindindum þegar það er blautt, en þá eru líka meiri líkur á að barnið hætti fyrr með bleyju.

Að lokum: Það þarf ekki að kaupa allan lagerinn strax. Það er allt í lagi að byrja á 1-2 bleyjum og athuga hvernig manni líkar við þær, og bæta svo við safnið smám saman.

Endilega deildu:

Þú vilt örugglega skoða þetta líka...